Translate

Monday, July 22, 2013

Rice krispie með rjóma, banana og karamellu


Ákvað að prófa nýja köku fyrir barnaaffmælið hans Kára Steins.  Varð hugsað til Bjarka Páls , bróður hans Kidda, og uppáhaldskökunnar hans.  Rice Krispie köku með banana, rjóma og karamellu.  Ég fann þessa hérna uppskrift hér.  Svo fann ég lika þess hérna uppskrift .

Ég ákvað að nota þá fyrri en ég átti góða karamellusósu sem ég notaði í stað þess að nota töggur.  Svo notaði ég pipp súkkulaði í botninn.


Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu
Botn:
  • 100 g smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g karamellufyllt súkkulaði, t.d. Rolo, Galaxy, karamellufyllt Pipp eða mars.
  • 4 msk síróp
  • 4-5 bollar Rice Krispies
Bræðið smjör, súkkulaði og síróp saman í rúmgóðum potti við vægan hita. Takið pottinn af hitanum og hrærið Rice Krispies saman við. Setjið blönduna í form og látið kólna í ískáp.
Bananarjómi:
  • 1 peli rjómi (2,5 dl)
  • 1 stór banani
Stappið bananann og þeytið rjómann. Blandið stöppuðum banananum varlega saman við rjómann og breiðið yfir botninn.
Karamellusósa:
  • 20-30 ljósar Nóa töggur (eða aðrar karamellur)
  • 1 dl rjómi
Bræðið töggurnar í rjómanum við vægan hita og hrærið þar til blandan er slétt. Kælið karamellusósuna áður en hún er sett yfir rjómann.

Thursday, July 18, 2013

Magnolia enn og aftur

Úff síðan ég prófaði magnolubollakökurnar hef ég ekki getað hætt að hugsa um þær og nokkrum sinnum bakað þær og alltaf slá þær í gegn.

Þar sem það var cars þema :)  

Hér er uppskriftin.

Hérna eru sömu kökurnar í barnaafmælinu






Wednesday, July 17, 2013

Barnaafmæli Kára Steins

Kári Steinn fékk að bjóða nokkrum krökkum í afmælisveislu og honum þótti það svakalega spennandi.  Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að hafa þetta einfalt og bjóða bara krökkunum í húsinu og þetta urðu 9 krakka allt í allt, með Víkingi og Kára.  Einfaldasta barnaafmæli sem við höfum haldið fyrir utan þegar Víkingur bauð í ævintýragarðinn í kringlunni ( en þá var ég ekki heima ).  Engir foreldrar og ekkert vesen, ég komst upp með að baka eingöngu 2 kökur og muffins og ekkert stress hehe.

Ég var mikið búin að velta þvi fyrir mér hvernig ég gæti skreytt borðið og var komin á það að hafa svartan dúk ( sést minnst á honum ef eitthvað fer niður ), svo áttum við nokkra rauða diska frá þvi í fjölskylduafmælinu sem ég notaði og servéttur.  Áætlunin var að reyna að hafa þetta sem einfaldast og ódýrast. ( Nokkrum dögum eftir afmælið fann ég cars diska, glös og servéttur í kronunni i kópavogi en ég var búin að leita lengi að þessu ).  Notaði svo bara plastglösin sem strákarnir nota hversdags og svo áttu þeir 1 cars disk og 1 spidermandisk sem við notuðum líka þvi það voru ekki til nógu margir rauðir diskar.  Rétt áður en ég fór að leggja á borðið ákvað ég að kíkja upp í skáp og ath hvort það leyndist einhver fjarsjóður þar.  Juju, kaupgleðin mín borgar sig stundum hahaha.  Ég hafði einhvern tímann keypt rauðan dúk og hann gat ég notað og svo átti ég smá bút eftir af þessum bláa borða sem er þarna í miðjunni.  Siðan fann ég nokkra upphleypta carslimmiða sem ég setti á tannstöngla og stakk í bollakökurnar og svo bara allir carsbílar strákana settir á borðið.  Kári afmælisbarn var alveg hæstánægður með þetta og krökkunum þótti þetta mjög flott.


Jú svo fann ég líka þennan borða uppi í skáp :)






Afmæliskakan, ég varð mun sáttari við þessa en i hinu afmælinu


Magnoliubollakökurnar með límmuðunum


Blásið á kökuna


Víkingur fetar í fótspor langafa Benna, afa Eyda og pabba síns og stóð upp og hélt ræðu


Og Kári Steinn þakkaði kærlega fyrir sig :)










Tuesday, July 16, 2013

Gullin mín

Gullmolarnir mínir prúðbúnir og tilbúnir fyrir afmæli.  Hawairósin okkar er þarna fyrir aftan þá.





Friday, July 12, 2013

Ananasmarengs

Hér er ein einföld kaka :)

Ég er að tala um fremri kökuna.

Marengsbotn með kornflakes
Ananaskurl og rjómi :)

Thursday, July 11, 2013

Fyrri afmæliskakan

Fyrir mörgum mánuðum ákváð Kári Steinn að hann vildi fá drekaköku þegar hann ætti næst afmæli.  Í þá var ekki talað um neitt annað en dreka.Ég fór auðvitað í það að skoða allskonar drekakökur á netinu og planleggja hvernig ég gæti gert eina slíka.  Einn daginn hætti drengurinn að tala um dreka og fór að tala AFTUR um  bíla, nánar tiltekið cars bíla.   Síðan þá hefur Kári Steinn beðið um bílaköku og heppin ég átti kökumót af leiftri McQuin :)  Það kökumót keypti ég í boston þegar við Kiddi fórum þangað fyrir 2 árum.  Fyrir 2 árum var Kári Steinn lika mikið fyrir þessa cars bíla og lék sér ekki með annað dót en bíla og af þeim átti hann nóg af hehe.  Svo hætti hann að leika við þá en byrjaði aftur 2 árum seinna.


Sjálf var ég ekkert allt of ánægð með þessa köku en afmælisbarnið var hæstánægt og þá varð ég ánægð :)

Wednesday, July 10, 2013

Kári Steinn 4 ára ,2 mánuðum of seint

Sama dag og dætur okkar, Alexandra Rós og Sigurrós Elisa, " urðu" 8 ára ( eða 8 ár siðan þær fæddust andvana ) héldum við upp á 4 ára afmælið hans Kára Steins.  Afmælið varð ekki jafn stórt og ég hafði ætlað í upphafi, þeas við buðum ekki öllum þeim sem við ætluðum að bjóða til að byrja með.  Drengurinn varð þó himinlifandi yfir að fá bílakökuna sína OG að fá loksins haldið upp á afmælið sitt.


Svo var að sungin afmælissöngurinn sem Kára þótti ansi skemmtilegur og fór dálítið hjá sér af allri athyglinni og honum loknum var blásið á kertið.

og það var blásið 
og blásið
og blásið
og blásið en barnið gafst ekki upp né loginn
og barnið fór nær loganum
og hélt áfram að blása og  fara nær loganum
og afmælisstrákurinn hélt áfram að blása og færa sig nær loganum og þegar hér var komið þá var afi Eydi aðeins farinn að hafa áhyggjur af stráknum hehe

Svo tókst það að lokum :)

Viljið þið sjá fleiri köku myndir ?








Monday, July 8, 2013

Munaðarnes

Við fjölskyldan fórum í bústað í munaðarnes í lok júní og vorum þar í viku.  Yndislegur timi, við komum algjörlega úthvíld heim.  Ekki annað hægt en að hvíla sig þegar við loksins búin að endurheimta manninn minn heim aftur :)  Ég mun koma með nokkrar myndir hingað ur ferðinni seinna en núna er bara timi fyrir eina prjónamynd haha.




Friday, July 5, 2013

Kirsuberjakaka


Seinasta þriðjudag voru 8 ár síðan dætur okkar Kidda fæddust andvana.  Ég sakna þeirra á hverjum degi og hugsa til þeirra nær daglega en ég hef lært að lifa með sorginni.  Strákarnir mínir gera hvern dag eftirminnilegan og gleðiríkan.  Við Kiddi höfum oftast gert eitthvað til að minnast þeirra Alexöndru Rósar og Sigurrósar Elísu og í ár buðum við í kaffi.  Reyndar slógum við 2 tilefnum saman á þessum degi því loksins komum við okkur í það að halda upp á fjölskylduafmælið hans Kára Steins.  Þegar hann átti afmæli var Víkingurinn í aðgerð og svo kom utskriftin hans Kidda og afmælinu hans hefur alltaf verið frestað.  Nú var barnið varið að spyrja mikið um bílakökuna ( sýni hana seinna ) þannig að við ákváðum að hafa eina veislu fyrir systkinin, stelpurnar og Kára.  Þessi kaka var gerð til heiðurs Alexöndru og Sigurrósar.

Ég fann uppskriftina á blogginu Eldhússögur.  Þegar ég sá hvenær uppskriftin hafði verið sett inn á bloggið vissi ég að ég ætti að gera þessa köku en hún var sett inn 2. júlí 2012 og á dánardegi stelpnanna.  Hún var rosalega góð.


Uppskrift
Kökubotnar
  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.
Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.
Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.
Kirsuberjakrem
  • 500 g mascarpone ostur
  • 3 dl rjómi
  • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
  • 120 g sykur
  • ½ tsk vanilusykur
Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.
Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.
Súkkulaðikrem
  • 175 g suðusúkkulaði
  • ½ dl rjómi
  • 1 msk smjör
  • 1msk síróp
Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!
Textinn var tekin af blogginu Eldhússögur.