Translate

Friday, July 5, 2013

Kirsuberjakaka


Seinasta þriðjudag voru 8 ár síðan dætur okkar Kidda fæddust andvana.  Ég sakna þeirra á hverjum degi og hugsa til þeirra nær daglega en ég hef lært að lifa með sorginni.  Strákarnir mínir gera hvern dag eftirminnilegan og gleðiríkan.  Við Kiddi höfum oftast gert eitthvað til að minnast þeirra Alexöndru Rósar og Sigurrósar Elísu og í ár buðum við í kaffi.  Reyndar slógum við 2 tilefnum saman á þessum degi því loksins komum við okkur í það að halda upp á fjölskylduafmælið hans Kára Steins.  Þegar hann átti afmæli var Víkingurinn í aðgerð og svo kom utskriftin hans Kidda og afmælinu hans hefur alltaf verið frestað.  Nú var barnið varið að spyrja mikið um bílakökuna ( sýni hana seinna ) þannig að við ákváðum að hafa eina veislu fyrir systkinin, stelpurnar og Kára.  Þessi kaka var gerð til heiðurs Alexöndru og Sigurrósar.

Ég fann uppskriftina á blogginu Eldhússögur.  Þegar ég sá hvenær uppskriftin hafði verið sett inn á bloggið vissi ég að ég ætti að gera þessa köku en hún var sett inn 2. júlí 2012 og á dánardegi stelpnanna.  Hún var rosalega góð.


Uppskrift
Kökubotnar
 • 2 egg
 • 2 dl sterkt kaffi
 • 2½ dl súrmjólk
 • 1,25 dl matarolía
 • 200 g hveiti
 • 420 g sykur
 • 85 g kakó
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur
Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.
Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.
Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.
Kirsuberjakrem
 • 500 g mascarpone ostur
 • 3 dl rjómi
 • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
 • 120 g sykur
 • ½ tsk vanilusykur
Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.
Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.
Súkkulaðikrem
 • 175 g suðusúkkulaði
 • ½ dl rjómi
 • 1 msk smjör
 • 1msk síróp
Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!
Textinn var tekin af blogginu Eldhússögur.

No comments:

Post a Comment