Translate

Friday, August 16, 2013

Áskorun

Munið þið eftir áramótaheitinu mínu með að vera duglegri að elda og reyna nýja rétti.  Heitið hefur verið í dálítilli lægð í sumar en í kvöld tók ég af skarið og eldaði kjúklingarétt.  Áskorunin var að þetta var indverskur réttur, mörg hráefni og mjög spennandi.  Strákarnir þótti þessi réttur nokkuð góður en borðuðu ekki mikið.  Við Kiddi vorum samt sammála um að það væri alveg þess virði að elda hann aftur.  Ég breytti þó út frá uppskriftinni og hafði bara 1 lauk í stað 2ja og sleppti kóriandernum ( því ég fæ bara sápubragð af Kóríander upp í mig, ekki gott ! ) og setti steinselju í staðinn.  Næst myndi ég veiða kanilstangirnar upp úr fyrr.  



Uppskrift f. 3-4  (  Uppskriftin er að finna hjá Ljufmeti.com )
  • 2-3 tsk olía (t.d. kókosolíu )
  • 2 laukar, saxaðir gróft  ( ég notaði bara 1 )
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 negulnaglar
  • 2 kanilstangir
  • 4 svört piparkorn
  • 3 kardimommur, heilar
  • 1 bakki kjúklingalundir (ca. 600 g)
  • 3 tsk garam masala (krydd)
  • ca. 2 cm engiferrót, rifin
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð gróft eða rifin
  • 1-2 tsk salt
  • 1/2-1 tsk chiliduft
  • 1/2 – 1 dl möndluflögur
  • 1 dós hrein jógúrt (180 g)
  • 2 græn epli, afhýdd og skorin í grófa bita
  • ferskur kóríander ( ég sleppti því og hafði steinselju i staðinn )
Hitið olíuna á pönnu og setjið út á pönnuna lárviðarlauf, negulnagla, kanilstangir, piparkorn og kardimommur í smástund. Bætið lauknum út í og steikið við vægan hita í 3-5 mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins en er ekki byrjaður að brúnast. Bætið kjúklingalundunum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur, bætið olíu á pönnuna ef með þarf. Setjið Garam masala, engiferrót, hvítlauk, salt, chiliduft og möndluflögur úr í og steikið í 2-3 mínútur. Lækkið hitann og hellið jógúrt út á og hrærið í nokkrar mínútur. Bætið eplunum saman við og látið malla undir loki í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Skreytið með ristuðum möndluflögum og ferskum kóríander. Berið fram með hrísgrjónum, fersku salati ogNanbrauði.

No comments:

Post a Comment